Viltu verða líffæragjafi?
Spurningar og svör um líffæragjöf

Í hverju er líffæragjöf fólgin?

Í hverju er líffæragjöf fólgin?

Líffæragjöf felst í því að líffæri (hjarta, lungu, lifur, nýru, bris, þarmar) eru fjarlægð úr látinni manneskju og grædd í sjúklinga með alvarlega bilun í þessum líffærum.  

Að auki kemur stór hluti ígræddra nýrna frá lifandi gjöfum, oftast nánum ættingjum. Einnig er hluti lifrar frá lifandi gjafa notaður til ígræðslu í stöku tilvikum. Loks má bæta sýn sjónskertra með ígræðslu hornhimnu frá látnum. 

Við hvaða orsakir andláts kemur helst til greina að gefa líffæri?

Við hvaða orsakir andláts kemur helst til greina að gefa líffæri?

Andlát vegna heiladauða er forsenda þess að unnt sé að nýta líffæri til ígræðslu.
Þá er hægt að fjarlægja líffærin áður en blóðrás stöðvast og þau verða fyrir skemmdum. Algengustu orsakir heiladauða eru blæðingar eða æðastífla í heila eða miklir höfuðáverkar sem valda óafturkræfum skemmdum á heilavef.

Er unnt að staðfesta heiladauða með vissu? 

Er unnt að staðfesta heiladauða með vissu? 

Já. Þegar blóðflæði til heilans stöðvast með öllu myndast útbreiddar skemmdir og kallast það ástand heiladauði. Öll starfsemi heilans hættir og samkvæmt lögum er manneskjan þá látin. Langoftast deyja menn þannig að öndun hættir og hjartsláttur stöðvast og þar með allt blóðflæði líkamans. Í fáeinum tilfellum getur það gerst að algert heiladrep verður hjá sjúklingum í öndunarvélameðferð án þess að hjartsláttur stöðvist strax.
Þá er hægt að halda blóðrás og öndun gangandi um sinn. Dauðinn er þá staðfestur með nákvæmu mati á starfsemi miðtaugakerfis og öðrum rannsóknum samkvæmt ákveðnum verkferlum. Stundum eru teknar myndir af heilaæðum til að staðfesta stöðvun blóðflæðis.

Hvenær er meðferð hætt?

Hvenær er meðferð hætt?

Þegar algert heiladrep hefur verið staðfest er manneskjan úrskurðuð látin og er þá allri meðferð hætt. Ef nema á brott líffæri til ígræðslu er meðferð haldið áfram þar til þau hafa verið fjarlægð. 

Þarfnast margir ígræðslu líffæris?

Þarfnast margir ígræðslu líffæris?

Eftirspurn eftir líffæraígræðslum hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin.
Á hverju ári þarfnast um 25–30 sjúklingar hér á landi líffæraígræðslu.
Ekki er unnt að nýta líffæri nema í litlum hluta dauðsfalla en hver líffæragjafi getur bjargað lífi nokkurra einstaklinga. Mikill skortur er á líffærum til ígræðslu og því er áríðandi að sem flestir séu fúsir til að gefa líffæri.

Hverjir þarfnast ígræðslu líffæris?

Hverjir þarfnast ígræðslu líffæris?

Meginástæðan er aukin tíðni langvinnra sjúkdóma sem leiða til líffærabilunar.
Fólk á öllum aldri getur veikst af svo alvarlegum sjúkdómum í hjarta, lifur, lungum eða nýrum að líffæraígræðslu verður þörf.
Við nýrnabilun á lokastigi er völ er á öðru meðferðarúrræði, svokallaðri skilunarmeðferð, en ígræðsla nýra er þó ákjósanlegri í mörgum tilvikum.

Hvers vegna ættir þú að taka afstöðu til líffæragjafar?

Hvers vegna ættir þú að taka afstöðu til líffæragjafar?

Þá vita ættingjar hug þinn til líffæragjafar.

Komi líffæragjöf til greina þegar dauða ber að höndum spyrja læknar aðstandendur um afstöðu hins látna til líffæragjafar. Sé hún ekki kunn kemur það í hlut nánustu ættingja að taka ákvörðun um líffæragjöf en það getur verið afar erfitt á sorgarstund.
Vitneskja ættingja um afstöðu þína varðandi líffæragjöf er eina leiðin til minnka hið tilfinningalega álag sem óhjákvæmilega skapast við slíkar aðstæður.

Á hverju skal byggja ákvörðun um líffæragjöf?

Á hverju skal byggja ákvörðun um líffæragjöf?

Tilfinningalegir, trúarlegir og siðferðilegir þættir og eflaust fleiri geta komið upp þegar afstaða til líffæragjafar er hugleidd. Við ákvörðunina er þó eðlilegt að velta fyrir sér hvers maður myndi óska nánustu aðstandendum sínum ef þeir fengju alvarlega líffærabilun sem krefðist líffæraígræðslu. Hér að ofan hefur einnig verið bent á að slík ákvörðun getur létt miklu álagi af nánustu ættingjum ef upp koma aðstæður þar sem líffæragjöf kemur til greina. 

Hversu góður er árangurinn af líffæraígræðslum? 

Hversu góður er árangurinn af líffæraígræðslum? 

Yfirleitt er árangur góður. Ígræðsla líffæris bjargar ekki einungis lífi heldur bætir hún lífsgæði. Margir lifa eðlilegu lífi með ígrætt líffæri, geta stundað vinnu og líkamsrækt. Konur með ígrætt líffæri geta stundum eignast börn. 

Hvar fara líffæraígræðslur fram?

Hvar fara líffæraígræðslur fram?

Ígræðslur líffæra úr látnum líffæragjöfum fara fram á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Líffæri sem gefin eru hérlendis eru flutt þangað. Þau eru hluti af líffærabanka norrænu ígræðslusamtakanna Scandiatransplant sem Ísland á aðild að.
Lifandi líffæragjafar geta sótt um tímabundna fjárhagsaðstoð hjá Tryggingastofnun ríkisins meðan þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

Taktu ákvörðun!

Taktu ákvörðun!

Ræddu við þína nánustu um afstöðu þína til líffæragjafar.
Skráðu afstöðu þína á þessa vefsíðu eða fylltu út líffæragjafakort og geymdu það með öðrum persónuskilríkjum þínum.

Hver sem afstaða þín er kemur þú óskum þínum á framfæri og getur þar með létt erfiðum ákvörðunum af ástvinum þínum. 

Get ég breytt afstöðu minni til líffæragjafar? 

Get ég breytt afstöðu minni til líffæragjafar? 

Viljir þú breyta afstöðu þinni til líffæragjafar getur þú gert það á þessari sömu síðu á sama hátt og þú skráðir þig sem líffæragjafa. 

Þú tekur sjálfstæða ákvörðun. Þar með léttir þú erfiðum ákvörðunum af ástvinum þínum.